Saga Atlas hf
Atlas hf. var stofnað árið 1969 af Ásgeiri Valhjálmssyni. Ásgeir var eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins allt til 1. desember 2002 er Ísgata hf. keypti fyrirtækið af Ásgeiri og sameinaði fyrirtækin tvö undir nafni Atlas Ísgata hf. sem síðar breyttist aftur í Atlas hf.
Ísgata hf. var stofnað árið 1988 og voru eigendur þess Bergur Huginn hf. í Vestmannaeyjum, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað, Þormóður Rammi – Sæberg á Siglufirði, Gunnvör á Ísafirði og Tangi á Vopnafirði.
Atlas var um árabil með starfsstöð í Borgartúni í Reykjavík en frá árslokum 2003 hefur fyritækið verið með aðsetur að Hvaleyrarbraut 2 í Hafnarfirði. Þegar Atlas flutti starfsemi sína að Hvaleyrarbrautinni tók það við rekstri Esso aðfangastöðvar sem staðsett var í húsnæði því sem Atlas keypti undir starfsemi sína.
Eftir að Atlas tók við rekstri Esso aðfangastöðvarinnar tók fyrirtækið að sér umboð fyrir málningarvörur Slippfélagsins í Hafnarfirði.
Árið 2004 seldu Bergur Huginn, Síldarvinnslan og Gunnvör hluti sína í Atlas hf. til Slippfélagsins, Eiríks Ólafssonar, Heiðarbýlis og starfsmanna fyrirtækisins.
Við breytingar á rekstri N1 árið 2009 hætti Atlas rekstri aðfangastöðvarinnar. Í framhaldi af því var farið í miklar endurbætur og breytingar á húsnæðinu að Hvaleyarbraut 2. Efri hæð húsnæðisins var stækkuð og lagerhluta á 1 hæð skipt upp. Í framhaldi af því flutti Atlas hf. alla skrifstofustarfsemi sína á efri hæðina en leigði skrifstofuaðstöðuina á 1. Hæð ásamt helmingi lagerhúsnæðisins til Sónar hf. Atlas hf. og Sónar hf. hafa því verið á nánu sambýli frá þeim tíma að Hvaleyrarbraut 2 frá seinnihluta árs 2009.
Eigendur Atlas hf. í dag eru Eirikur Ólafsson, Heiðarbýli, Rammi, Brim, Aðalsteinn Elíasson, Helgi Þórarinsson og Grímur Gíslason.
Árið 2017 keypti Atlas hf. fyrirtækið Skipavörur ehf og hafa Skipavörur verið reknar samhliða Atlas á Hvaleyrarbrautinni frá þeim tíma.
Atlas hefur frá upphafi verið umfangsmikið fyrirtæki í þjónustu við sjávarútveg og iðnað. Innflutningur og sala á margskonar vél- og tækjabúnaði hefur verið sérgrein Atlas gegnum árin en auk þess hefur Atlas fetað sig inn á ýmsar brautir í innflutningi og sölu margskonar hluta og búnaðar. Þá er Atlas með umboð fyrir skipasmíðastöðvar í Póllandi, á Spáni og víðar.
Auk þeirra vörumerkja sem Atlas er með umboð fyrir þá er fyrirtækið með alsherjar varahlutaþjónustu og sér um að útvega varahluti í flestar gerðir véla, tækja og búnaðar.